November 4, 2003

Gleymdi að minnast á hvað kom fyrir um helgina. Var nebblega að vinna og yfirleitt þá er vinnan mín þannig að það eina sem ég græði á henni er síþreyta. Nema þegar eitthvað gerist eins og á sunnudaginn. Það var frekar kalt úti svo að einn af rónunum á Hlemmi hafði ætlað að koma sér uppí Breiðholt nema að það tókst ekki betur til en hann slysaðist niður á Skúlagötu. Langa leið frá Breiðholti en líkt og vinurinn spurði: "Hvar er ég?" Svo ég sem miskunnsami samherjinn bauðst til að hringja á leigubíl handa honum, sem hann þáði með þökkum en skipti svo um skoðun og vildi heldur hringja í pabba sinn. Eftir u.þ.b 15 mín þar sem ég þurfti að halda uppi samræðum við Stebba félaga minn sem var nú farinn að slefa óþarflega mikið og hor lak úr báðum nösum. Svo ég sagði honum að ég myndi hringja aftur á leigubíl handa honum. Nýtti tækifærið þar sem hann var ekki alveg með athyglina í lagi og hringdi bara í lögguna. Fannst það einhvern veginn betra heldur en að hafa hann hangandi yfir mér í búðinni fram eftir kvöldi. Líka þar sem pabbi hans flúði þegar ég sagðist hafa hringt á lögguna. Lítil hjálp í honum sem sagt. Kom svo ekki bara löggan 20 mín seinna og ég og Stebbi eiginlega búnir að ræða allt milli himins og jarðar. Orðnir nokkuð góðir félagar. Þó svo að samræðurnar gengu aðallega út á það að hann spurði mig: "Ætlar að vera vondur?" og ég svaraði: "Nei, nei, nei. Erum við ekki félagar?" og þá svaraði Stebbi: "Ég er ekki vondur maður." Þetta gekk svona í 30 mín. Þangað til löggan kom og umræðurnar breyttust. Þá sagði Stebbi: "Ég er ekki vondur maður" og löggan svaraði: "Víst þú ert svona góður, Stebbi minn, viltu þá ekki koma með okkur?" Sem Stebbi svaraði: "ég kem aldrei með góðu!" Svo fór hann bara með þeim og ég var skilinn einn eftir í búðinni.

No comments:

Post a Comment