March 2, 2004

Elskið mig líkt og ég elska ykkur



Mér finnst ég vera farinn að væla eitthvað svo mikið hérna inni. Kannski var það bara í gær? Eða kannski er það alltaf? Veit ekki. Það eina sem ég veit er að ég þarf að fá þessa könnun um einelti í háskólanum aftur. Það var hlegið að mér í gær í tíma. Sálarlaus kvikindi sem eru að læra með mér. Þannig var að ég var beðinn um að lýsa týpískum degi í lífi mínu. Það gerði ég með glæsibrag og svo var fólki boðið upp á það að spyrja mig spurninga. Allt í lagi, hugsaði ég, Það getur ekki verið svo erfitt að svara einhverjum spurningum um lífið og tilveruna. Þangað til ég var spurður að því hvort ég ætti kærustu. Nei, sagði ég til að ljúga ekki að fólkinu en bætti við að nú ætti ég bara alveg helling af vinkonum. Kvikindin hlógu sig máttlaus!!! Kennarinn sem tók eftir því að ég var hágrátandi spurði "hvers vegna hlægið þið?"

Af hverju hlær fólk svona að óförum annarra? Er það mér að kenna að stúlkur séu farnar að líta á mig sem þveröfugan? Jú. Ókei. Viðurkenni að þessi tilraun mín til að sannfæra fólk um að kynhneigð mín leitar til eigin kyns er að hafa tilætluð áhrif. Það verður ekki aftur snúið úr þessu.

Horfði á kastljósið í gær. Stoltur af ungu þingmönnunum okkar. Já......... stoltur. Umræða um skólagjöld. Umræða um umræðu um skólagjöld. Ég er alveg til í það að þessi mál verði rædd. Alltaf gott að ræða málin, maður fær að koma í sjónvarpið og svoleiðis. Það var samt eitt sem Bjarni Benediktsson, glæsilegur fulltrúi okkar unga fólksins á Alþingi, sagði í gær sem er enn fast í mér. Hann sagði nefnilega að það væri hægt að jafnan aðgang að Háskólanum með t.d. lánum frá Lánasjóðunum. Sem sagt..... enn eitt skuldabréfið í viðbót. Ekki nýtt skuldabréf svo sem en samt aukning á lántöku hjá Lánasjóðnum. Sem þýðir að þegar kemur að því að borga eru enn færri sem eiga efni á því að borga til baka það sem fengið var lánað. Nema náttúrulega ef þeir sem klára Háskólann fara fram á hærri launakröfur til að koma á móti skuldaaukningunni. Svo þurfum við ekkert að vera að hækka laun þeirra sem ekki fóru í Háskólann því þeir eru ekki lengur að taka þátt í því að borga undir okkur Háskólanemana.

Bíddu við!!!!!!!!!!! Gæti verið að....... nei varla.... segjum sem svo að skólagjöld yrðu tekin upp. Þetta er einungis getgáta hjá mér, en ef tekin væru upp skólagjöld hversu langt myndi líða þangað til við fengjum auglýsingu þar sem ánægðir háskólanemar á glænýjum Yaris í einbýlishúsinu sínu á Ránargötunni myndu sjást leiða dóttur sína og son allir skælbrosandi enda nýbúinn að ná sér í skólagjaldalán hjá næstu bankastofnun.

Sólríkur dagur á Ránargötunni. Ungt par leiðir rauðhærðan dreng(3 ára) og stúlku(5 ára) með kastaníubrúnt hár. Yfir skjáinn renna setningar sem virka eiga hvetjandi á ungt fólk að taka sér skólagjaldalán. Hugmyndir: "Við léttum þér lífið!", "Áhyggjulaust nám!", "Aukinn yfirdráttur!", "Persónuleg þjónusta!", "Lægri vextir" og svo framvegis. Fjölskyldan nemur staðar fyrir framan rauðan Yaris og eiginkonan kasta bíllyklunum yfir bílinn og eiginmaðurinn grípur þá með bros á vör. Konan lítur til barnanna og hlær. ( Ath. amma gæti veifað þeim úr glugga á hvítu einbýlishúsi.) Upp kemur LJÓS skjár, má ekki vera dökkur!!! Merki bankans og persónulegt vörumerki t.d. Reykjavíkurbanki - þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að borga skuldir. Eða Bankinn - Upplifun og ánægja!

Ekki það að ég vilji vera leiðinlegur en..... bankinn og ríkið hefur þá lánað þeim fyrir eftirfarandi:

Bílinn á 75% bílaláni.
Húsið í 75-90% eigu ríkisins og restin 10-25% í eigu bankans.
Laun og námslán duga væntanlega (skulum við vona) fyrir leikskólaplássi handa börnunum.
Yfirdráttur svo til að eiga fyrir mat.
Visa sér svo fyrir raðgreiðslum til þess að innbúið sé allt til staðar.

Sé ekkert athugavert við þetta. Allir ánægðir og framtíðin björt.

No comments:

Post a Comment