March 22, 2004

Lifandi mánudagur

Helgin búin. Sem minnir mig á leikritið sem ég ætla að skrifa; Helgibúinn. Sem fjallar um samband manna og Guðs. Umræðuefni sem aldrei þrýtur og er alltaf efst í huga hvers manns. Birti hér smá kafla úr verkinu sem þó er háð skilyrðum um breytingar. Bíð enn eftir leyfi frá Biskupsstofu að leggja nafn Guðs við hégóma.

Sunnudagsmorgunn í 101. Risíbúð, frekar snauð af húsgögnum. Við sjáum aðalpersónu verksins sitja í sófa, hárið úfið, greinilega nývaknaður. Klæddur í náttbuxur og ber að ofan. Heldur á fjarstýringu í höndinni. Allt í einu kveður við mikill hávaði og í íbúðinni birtist brennandi runni. Á svip mannsins má ekki greina undrun, meira pirring, ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir.

Runni: Ætlar ekki í messu? Ha?
Maður: Nei, ég nenni ekki. Fór aðeins út með strákunum í gær. Drulluþunnur maður. Svo langaði mig að horfa á leikinn.
Runni (greinilega sár): Þú tekur mig ekki alvarlega. Þú leggur enga rækt við samband okkar. Ég er ekki hlutur sem þú getur bara gripið í þegar þér hentar. Ég hef líka mínar tilfinningar.
Maður: Æ, láttu ekki svona. Ég er bara svolítið þreyttur. Þú veist þetta er ekkert persónulegt. Mér finnst ég hafa svolítið svikið sjálfan mig þessa dagana. Hef ekki eytt nógu miklum tíma með sjálfum mér, skilurðu? Við strákarnir þurfum stundum líka að eiga góða stund með okkur sjálfum. Til að hlaða batteríin og efla sjálfstraustið. Lofa því að koma í næstu viku. Láttu ekki svona. Enn vinir?
Runni (sárari en áður): Endilega! Gerðu það bara mér er alveg sama! Við skulum bara sjá hvernig þér tekst að komast af án mín. Kannski að ég bjóði Jóa vini þínum bara með mér í kirkju? Viss um það að hann myndi ekki koma svona illa fram við mig! (Ekkasog, runninn snýr sér átt frá manninum) Já, Jói, þar er myndarlegur og tilfinningagreindur maður. Hann sýnir Guði sínum virðingu. Kann gott að meta og metur þig að verðleikum....
Maður: Æi, ekki láta svona... þú veist ég ætlaði ekki að vera leiðinlegur við þig...
Runni: Nei! Nei! Nei! Það er greinilegt hver þín afstaða er! Metur meira þessa stráka að elta þessa tuðru heldur en mig. Ég sé þessa stráka bjarga sálu þinni, þó ég viðurkenni að lærin á sumum þeirra gætu nú.... (horfir dreyminn til himins) gætu nú.... mmmmmmm.... hefði nú sonur minn haft vit á því að hafa svona "lærisveina"
Maður: Ó, Guð! Þú ert nú alveg hræðilegur! Ha ha ha. (ljós slökkna)

Verð að muna eftir því að hringja í Helga Björns og Bjarna Hauk og sjá hvort þeir séu ekki tilbúnir að setja þetta upp. Ég held það sér góður markarður fyrir svona verk þessa dagana. Sést best á myndinni frá Mel Gibsyni.

Hvað gerðist annars um helgina? Ekki margt verð ég að segja. Var búinn að minnast á tónleikana. Svo var helgin eiginlega undirlögð af vinnu. Eitt í sambandi við það. Nú slysast oft inn í búðina fólk sem ég kannast við og ég mannvinurinn get auðvitað ekki gert annað en að spjalla örlítið við það. Eitt sem hefur samt pirrað mig svolítið er að ekkert þeirra hefur sagt t.d. "Hvað ert þú að gera hér?" Með smá undrunartón í röddinni. Það er eins og það hafi alltaf búist við þessu. Eins og undir myndinni í Faunu hafi verið skrifað: Líklegastur til þess að vinna á kassa í matvöruverslun.

Hvernig væri nú að einhver myndi nú koma upp að mér og segja eitthvað í líkingu við: "Ég bjóst nú aldrei við því að sjá þig í svona starfi. Hélt alltaf að þú yrðir eitthvað meira heldur en við öll hin. Þú svona sætur og skemmtilegur strákur." Þetta er eitthvað sem gaman væri að heyra. Uppörvandi og byggjandi.

Talandi um eitthvað uppbyggjandi þá ætla ég nú að snúa mér að gerð skattframtals. Heyrumst.

No comments:

Post a Comment