March 18, 2004

Ætti að vera pirraðari. 1. hluti

Vændisumræðan. Kolbrún Halldórsdóttir skrifar í dag í moggann. Ég ætla að birta hér bút úr grein hennar: "Vændi fylgifiskur mansals." Það má segja að sá hluti greinarinnar sem ég ætla að birta hafi vakið upp hjá mér spurninguna, hvernig? Hér er búturinn:

"Okkur ber líka að starfa í anda þess sem ýmis félagasamtök og einnig nefndir á vegum Norðulandaráðs hafa lagt til, en þ.á.m eru tillögur um að stjórnmálamenn leiti leiða til að draga úr eftirspurninni eftir kynlífsþjónustu."

Jú. Gott og vel. Hvernig? Hvernig eiga stjórnmálamenn að geta dregið úr eftirspurninni? Hækka sektargreiðslur? Lengri dómar? Á það að vera töfralausnin? Er vændi og/eða kynlífsþjónusta sem sagt vandamál nútímaþjóðfélagsins og fyrir um það bil hundrað árum hafi það ekki verið til? Fall kommúnisma ástæða vændis og mansals? Er lífið bara svart og hvítt? Kannski?

Stjórnmálamenn geta svo sem hækkað sektargreiðslur í sambandi við vændiskaup en ég ætla að leyfa mér að efast um að það hafi nokkur áhrif á þá sem eru að leita sér eftir vændisþjónustu. Ef einstaklingur er tilbúinn að borga, segjum, 60.000 krónur fyrir þjónustu vændiskonu held ég að honum sé nokkuð sama þótt ríkið vilji sekta hann um X krónur fyrir athæfið. Held að á þeim tímapunkti sem hann ákveður að kaupa sér þjónustuna sé hann ekki að hugsa til sektarinnar, það gæti verið eitthvað annað sem á hug hans allann. Hvað þá að hann sé að hugsa um að eiga yfir höfði sér fangelsisdóm. Þá vaknar líka spurningin hjá mér hvar allir þeir sem teknir verða fyrir kaup á vændi eiga að afplána dóminn. Hvaðan peningarnir sem það kostar ríkið að fylgja þessum reglum eiga að koma og hvort að lögreglan, sem virðist mjög fjársvelt, sé í stakk búinn að fylgja þessum nýju lögum?

Þegar eitthvað er gert ólöglegra heldur en það er í dag er þá ekki hætta á því að áhrif þess verði þveröfug? Hvort er líklegra að áhrif þess að gera vændi ólöglegra séu þau að það færist ennþá neðar í undirheimana í stað þess að hverfa algjörlega? En ef það verður enn neðar í undirheimunum þá má jafnvel segja að það sé hér um bil horfið, verður ekki vandamál lengur því það er svo ólöglegt að það getur bara ekki staðist að einhver stundi það. Er rétta leiðin að horfa alveg framhjá þeirri staðreynd að vændi hefur alltaf verið til staðar? Allt í lagi. Dreg til baka "alltaf". Það hefur samt verið til staðar lengur heldur en Ísland hefur verið byggt.

Tökum sem dæmi Ítalíu. Fyrir meira en 46 árum (20.feb. 1958) settu þeir lög (nr. 75) þar sem vændishús voru gerð ólögleg. 560 hús, 3.353 herbergi og 2.075 vændiskonur. Allt gert ólöglegt á einum degi. Nú 46 árum síðar er umræðan um og viljinn til þess að leyfa þessi vændishús aftur aldrei meiri. Ítalir gera sér nefnilega grein fyrir því að með þessum lögum misstu þeir algjörlega stjórn á þessum málum. Einhvers staðar verða "vondir" að vera og því miður fyrir ítali völdu vændiskonurnar ekki að stofna saumastofu saman og græða pening á því að selja handunnin teppi. Nei af einhverjum ástæðum hvarf vændi ekki. Það varð mun sýnilegra en þó ósýnilegra, óviðráðanlegra og skapaði þar með fleiri vandamál. Það breyttist nefnilega svolítið. Það voru ekki og eru ekki ítalskar konur sem stunda vændið. Mikill meirihluti þeirra sem stunda vændi eru nefnilega ólöglegir innflytjendur sem hafa engin önnur úrræði til þess að þéna nógan pening til þess að lifa af. Ég held að Suður-Amerísku drengirnir sem skipta klæðum og standa á götuhornum Rómar séu ekki að þessu ánægjunnar vegna. Þetta er ekki "gefandi starf."

Nú er ég ekki að segja að ríkið eigi að stefna að því að opna fyrsta vændishúsið fyrir árið 2010. Alls ekki. En kannski er punkturinn sá að lausnin sé ekki í því að banna og ef það virkar ekki banna það aðeins meira. Vændi á sér lengri sögu og dýpri rætur heldur en mansal frá Austur-Evrópu. Það duga engar skammtímalausnir.

Segjum sem svo að ég væri gleðimaður. Lögin eru þannig að mér er heimilt að stunda vændi en það sé ólöglegt fyrir þann sem vill leggjast með mér að kaupa sér þjónustu mína. Nú erum við einungis að taka dæmi. Við skulum samt hafa það svolítið raunverulegt og bæta við nokkrum staðreyndum. Ég er í skóla og ríkið lætur mig hafa lán til þess að stunda nám mitt. Það er 52.000 krónur á mánuði. Ég þarf að borga leigu sem er 46.000 en ríkið hjálpar mér samt á líka þar með 11.000 krónum á mánuði. 63.000 - 46.000 = 17.000. Hljómar sem mikill peningur, ég veit, en segjum sem svo að ég sé það gráðugur að ég vilji meiri pening. Ég finn mér kvöldvinnu með 800 kall á tímann og næ að redda mér þannig 30.000 kalli í viðbót á mánuði. Svo einn daginn er ég staddur á bar niðri í bæ og upp að mér kemur maður og segir: "Ég borga þér 10.000 kall ef þú heldur um typpið á mér í 10 mín. 20.000 kall ef þú ferð niður á hnén og blæst eins kröftulega og þú getur. 30.000 kall ef þú leggst með mér heima hjá mér." Þarna hef ég sem sagt möguleika á því að redda mér mánaðarkaupinu á einni kvöldstund. Hmmmm? Skattfrjálst og allt. Gefum okkur það að ég láti slag standa og fari nú heim með þessu einstaklingi. 30.000 kall í vasanum, stoltið í molum en andskotinn hafi það ég á loksins pening. Maðurinn býður mér svo þann möguleika að koma heim til sín einu sinni í viku og fyrir klukkutíma þjónustu borgi hann mér sem sagt þennann 30.000 kall. 120.000 kall. Hólí mólí. Ég held að ég fari ekki beint til löggunnar og klagi hann. Þó það sé ólöglegt að kaupa sér vændi. Mér þykir vænna um peninginn heldur en löggjöfina á Íslandi.

Ef ég fæ stimpil á mig fyrir að hata konur með því að skrifa þetta verður það bara að vera. Ég kýs samt að horfa á það þannig að þetta sé ekki bara vandamál sem konur eigi við að etja. Það eru nefnilega líka strákar sem selja sig. Ég kýs að líta á það þannig að vændi sé ekki vandamál sem hverfi með því að forsætisráðherra og forseti tali til þjóðarinnar og endi ávörp sín á orðunum: "Munið svo að vændi er vondur hlutur! Við kaupum ekki konur!" Það þarf að kafa dýpra. Ekki hóta. Ekki hafa umræðuna á "jafningjagrundvelli," því ég held að sá sem neyðist í vændi telji þingmenn ekki jafningja sína. Það er ekki hægt að bera saman og telja jafningja fólk sem þénar 400.000 kr. plús og einstaklinga sem kannski eru atvinnulausir, ekki með rétt á atvinnuleysisbótum og tvö börn á framfæri. Peningar eru krafmikill hlutur og fólk er tilbúið að gera ýmislegt fyrir örlítinn pening í viðbót.

Mansal er hræðilegur hlutur, á því er enginn vafi. Ég neita samt að viðurkenna að málþing mikils metinna einstaklinga eigi einhvern tímann eftir að koma með lausn á vandanum. Hann er of stór. En svo lengi sem þessir einstaklingar ætla að tala um vændi undir rós, skamma og fordæma fólk fyrir að kaupa sér vændisþjónustu og neyða fólk til þess að halda þessum viðskiptum í undirheimunum þá eru málþing sem þessi óþörf. Væri það ekki svipað og ef samtök trúleysingja ætluðu sér að halda málþing um málefni kirkjunnar og skila svo niðurstöðum sínum til biskups og krefjast þess að fá þeim framgengt? Biskup á væntanlega ekki eftir að taka mark á því. Líkt og vændiskonur eiga ekki eftir að hætta að selja líkama sinn bara að því að ríkið segir það. Þetta er þjónusta sem er utan laga og þess vegna skiptir engu máli hvað lögin segja.

No comments:

Post a Comment