March 25, 2004

Þá er betra að þegja

Ákvað það í vinnu í gær að besta leiðin til þess að móðga ekki viðskiptavinina (fæ alltaf hroll þegar ég skrifa þetta orð) væri að halda bara kjafti. Það myndi þá ekki henda mig að missa út úr mér setningar eins og; gamla drusla, feita helvíti og ég held þú þurfir ekkert á öllum þessum hitaeiningum að halda. Fyrirtækið sér víst eitthvað athugavert við þetta. Fasistar.

Svo ég ákvað að halda bara kjafti. Get ekki sagt að það hafi borið árangur. Hvorki gagnvart viðskiptavininum (brrrrr) né fyrirtækinu. Víst einhver stefna hjá þeim að: "Gera allt fyrir okkar viðskiptavini!" Ég gerði allt... sem í mínu valdi stóð til að halda kjafti. Kannski best samt að ég skjóti hér inn smá afsökunarbeiðni fyrst. Ég ætlaði aldrei að slá utan undir og pota í augað í gamla karlinum sem var í búðinni um helgina. Kannski óþarfi? En mér er bara alveg sama þótt þú sért fæddur árið 1914, ef þú tekur poka þá skaltu borga fyrir hann.

Svo.... hvar var ég? Þögnin já. Fyrsta klukkutímann var þetta svo sem allt í lagi. En kellingin sem var að spyrja mig ætlaði ekkert að gefast upp! Hélt hún myndi aldrei halda út í meira en 10 mín. Ótrúlega þrjóskt sumt lið. Bara til þess að fá mig til að bjóða góðan daginn. "Segðu það, krakkaandskoti! Bjóddu mér góðan dag! Góðan dag! Segðu það!" Hvað vissi ég nema þetta væri eitthvert bragð hjá fyrirtækinu til þess að plata mig til þess að móðga enn einn viðskiptavininn. Er víst á síðasta séns. Ein móðgun í viðbót og þeir ætla að reka mig. Ég ætlaði sko ekki rassgat að láta plata mig. Ég alltaf einu skrefi á undan, sjáið þið?

Mér fannst þetta nú aðallega vandræðalegt fyrir hana. Gerði sig sko að algjöru fífli í gær og maður sá það á öðrum sem voru þarna inni, horfðu til mín og hristu hausinn og tóku síðan utan um kellinguna og reyndu að koma henni í burtu. Hún myndi þá kannski halda eftir örlitlum hluta af stolti sínu. Sorglegt. Náði samt loks að losna við hana. Bakkaði út í horn þar sem ég veit að öryggismyndavélarnar ná ekki til og leiftursnöggt sparkaði ég é sköflunginn á henni. Samt ekkert fast sko. Ég er sko enginn fasisti. Vissi að hún myndi ekki bögga mig meira þegar ég sá fyrsta tárið leka niður kinnina á henni. Það rífst enginn ef hann sýnir veikleikamerki eins og það að gráta.

Fasistafyrirtækið er víst búið að setja mig á skilorð. Þar sem þetta er bara orð á móti orði vilja þeir ekki gera neitt. En það verður víst einhver frá öryggisdeildinni með mér á vaktinni til að passa upp á mig. Skil ekki hvað ég ætti að óttast frá þessari kellingu??? Hún var helmingi minni en ég og virtist nú ekki geta lamið neinn.

No comments:

Post a Comment