March 30, 2004

Flinkur að feika það

Feikaði tveggja tíma fyrirlestur í ítölsku rétt áðan. Að enginn skuli sjá í gegnum mig er stórfurðulegt. Kannski furðulegra að ég skuli ekki sjá sóma minn í því að spyrja í lok fyrirlestra og eftir einkunnargjöf í ritgerðum og prófum; Hvernig fannst þér fyrirlesturinn/ritgerðin/prófið?

Svo þegar einhver segir mér að þetta hafi verið fínt get ég svarað á móti: Nú? Það er skrítið. Þetta var nefnilega allt saman rugl og uppspuni sem ég var að segja/skrifa.

Einhvern daginn kemst upp um mig. Þau sjá öll að ég var nakinn allan tímann. Talandi um tíma þá vorum við að læra orð yfir líkamann í dag. Spurning frá kennaranum hljómaði einhvern veginn svona: "Og hvað notum við til að sjá?" Bekkurinn svaraði auðvitað í einum kór: "Augun!" Nema litli blindi strákurinn á aftasta bekk. Hann vissi vel að hann getur ekki notað augun til þess að sjá. Hann þarf að nota gleraugun til þess. Sjá skýringamynd. Þar sat ég sem sagt einn út í horni og grét grimmd bekkjarfélaga minna. Þau vissu auðvitað ekki betur. Við glámarnir föllum svo vel inn í hópinn og fólk vill gleyma því að við erum til. Sem einstaklingar með okkar þarfir.

Svo kennarinn rak loks augun(lucky bastard) í mig tárvotan í horninu. Gekk yfir til mín og lagði höndina létt á öxlina á mér og spurði hvað væri að. "Að?," sagði ég. "Að.... að... að... hugsa sér ae þú berir ekki meiri virðingu og hafir meiri skilning á sérþörfum nemenda þinna? Hversu lengi á ég að gjalda þess að vera svona sérstakur. Já! Ég er sérstakur! Ég nota gleraugu og á skilið að vera viðurkenndur sem notandi þeirra! Það getur vel verið að þið séuð að nota þessi svokölluðu "AUGU" til þess að sjá en það er til fólk sem ekki nýtur þeirra forréttinda og kominn tími á að þið hættið þessum augnfordómum! Við erum enginn annars flokks þjóðfélagshópur. Við erum rödd sem kominn er tími á að fái að heyrast."

Þið hefðuð átt að sjá andlitið á henni. Orðlaus. Hún gerði sér grein fyrir því hversu ill- og ósanngjörn hún hafði verið. Ráðist á veikleika manneskju sem ekkert gat að því gert.

"tobbalicious, hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?"
"Gleraugnaglámur! Ég vil verða gleraugnaglámur."

Svo bekkurinn var látinn standa upp og biðjast fyrirgefningar. Tillögu minni um að frumburðum bekkjarfélaganna yrði fórnað til heiðurs félaga minna sem látist hafa í baráttunni fyrir auknu frelsi var hafnað. Mér finnst það bara sýna svart á hvítu að það var engin alvara á bakvið þessari afsökunarbeiðni.

No comments:

Post a Comment