Ætti að vera pirraðari. 2. hluti
Skólagjöldin. Nú á að spara hjá Háskólanum. Þeir hafa ekki efni á því að hafa fleiri en 5200 nemendur á næsta ári. Var tilkynnt með tölvupósti 19. des. að þetta lægi í loftinu. Nemendur yrðu að skrá sig á réttum tíma, engar undantekningar. Nemendur yrðu líka að borga á sama tíma. ENGAR UNDANTEKNINGAR. Skráning fer fram í næstu viku. Hringdi því í akademíska svið Háskólans í gær og bara fram ofur einfalda spurningu. Hvernig ætti ég að ná að spara mér pening til þess að geta borgað skólagjöldin núna? Lét fylgja með að námslánin hjá mér væru 52.000 kall og eftir að hafa borgað leigu ætti ég 16.000 til framfærslu. Svar hans var hnitmiðað og átti ég í raun engin svör við því: "Nú hefur þú haft 3 mánuði til þess að ná að bjarga þessu fyrir horn." Svo ég endurtók að ég hefði bara 16.000 é framfærslu og ætti því mjög erfitt að leggja fyrir 32.000 á þremur mánuðum. "Já, já, en þú hefur haft 3 mánuði!"
Það er rétt hjá honum. Ég hafði þrjá mánuði......... til þess að biðja bankann um meiri yfirdrátt til þess að geta stundað nám áfram. Mér finnst eitthvað rangt við það. En það er bara mín skoðun. Reyndar er ekki öll von úti enn. Ef mér tekst að sannfæra nemendaskrá að ég sé nógu mikið sértilfelli, líkt og ég býst við að u.þ.b. helmingur háskólanema er að gera núna, þá gæti ég mögulega kannski fengið frestun. Það verður þá að leggja fyrir nefnd.
Eins og áður sagði er þetta gert til að halda fjölda nemenda undir ákveðinni tölu. Einnig til þess að sigta út þá nemendur sem ekki stunda nám af alvöru. Nú mega nemendur heldur ekki skrá sig í meira en 20 einingar á misseri.
Menntun og hugsjónir. Bleh! Kannski bara best að fara að vinna aftur. Mikið rosalega er maður kominn með mikla leið á því að þurfa að eyða tíma og orku hvert einasta ár að eiga bæði við Lánasjóðinn og svo núna nýtt kerfi hjá Háskólanum. Búinn að tapa fyrir Lín og lítur út fyrir að ég sé líka búinn að tapa fyrir Háskólanum. Svo verða samþykkt skólagjöld á mánudaginn hjá Háskólaráði. Held reyndar að þau hafi engin áhrif í þeirri deild sem ég er í en samt þá finnst mér þetta enn eitt skrefið í þá átt að gera Háskólann að stofnun fyrir þá efnameiri. Þeir hafa efni á því að borga innritunargjald núna og hafa svo efni á því að borga skólagjöldin ef þau verða þá tekin upp.
Mér finnst þetta bara svolítið skrítið. En við búum við jafnaðarkerfi og nú sjáum við hverjir eru jafnastir. Besta samt af öllu er að, ég ætla að fá að nota þetta skemmtilega orð sem mér finnst eiga vel við, STÚPILÍUSARNIR sem eiga að gæta hagsmuna nemenda í Háskólaráði samþykktu tillöguna þegar hún var borin fram. Vel af sér vikið, krakkar mínir. Svona á að gera það. Hagsmunagæsla eins og best verður á kosið. Hvað næst? Barnaníðinga til að gæta barnanna á leikskólum FS? Að því þeir eiga svo gott með að vinna með börnum!
Til að sýna fram á vitleysisganginn og, vil ég halda fram aumingjaskap, stúdentaráðs þá langar mig að birta hér hluta úr þremur tölvupóstum sem mér hafa borist. Þeir birtast í réttri tímaröð. Dæmið svo sjálf hvað í andskotanum þau voru að pæla (ekki voru þau að hugsa.).
Tölvupóstur nr. 1, 19.des. Frá skrifstofu Háskólans. Fulltrúar nemenda samþykktu þetta.
Einnig samþykkti háskólaráð eftirtaldar aðhaldsaðgerðir varðandi skráningu nemenda:
"1. Ekki verða veittar neinar undanþágur frá skráningartímabili árlegrar skráningar 22.- 26. mars 2004 og greiðslu skrásetningargjalds.
2. Ekki verða veittar neinar undanþágur til nýskráninga og greiðslu skrásetningargjalds eftir 4. júní 2004 (og sama gildir um erlenda stúdenta eftir 15. mars 2004).
3. Leitað verður leiða til að koma í veg fyrir að nemendur skrái sig í námskeið sem þeir mæta svo ekki í.
4. Hömlur verða settar á breytingar á skráningum eftir að kennsla er hafin.
5. Skrásetningargjald verður ekki endurkræft."
Stúdentaráð svarar 16.mars. Þá hafði okkur borist ítrekun á þeim skilaboðum sem eru hér fyrir ofan.
"Það er skoðun forystu Stúdentaráðs að framlengja verði þennan frest til
greiðslu skráningargjaldsins í mars enda er krafa kennslusviðs
fordæmalaus, fyrirvaralaus og án nokkurs rökstuðnings. Stúdentaráð hefur
átt í viðræðum við háskólayfirvöld um lausn þessa máls og mun leita allra
leiða til þess að fá frest til greiðslu skráningargjaldsins."
(Ég myndi svara þessu en ég ætla að leyfa Þórði Kristinssyni, framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu, að eiga orðið.)
Tölvupóstur 17.mars. Vitleysunni hjá stúdentaráði svarað. Besti hlutinn er feitletraður af mér.
"Ljóst er af framangreindu að tímasetning árlegrar skráningar á ekki að koma á óvart, né heldur sú ákvörðun háskólaráðs að veita ekki neinar undanþágur frá skráningartímabili árlegrar skráningar 22.-26. mars 2004 og greiðslu skrásetningargjalds.
Kennslusvið framfylgir lögum og reglum Háskólans og ákvörðunum háskólaráðs þar sem stúdentar eiga tvo fulltrúa. Hvorugur þeirra greiddi atkvæði gegn ákvörðunum um aðhaldsaðgerðir sem samþykktar voru samhljóða í ráðinu á fyrrgreindum fundi 18. desember 2003.
Orðfærið í bréfi þínu að "krafa kennslusviðs sé fordæmalaus, fyrirvaralaus og án nokkurs rökstuðnings" er ógætilegt og gefur ekki rétta mynd af því hvernig staðið er að málum í háskólaráði og stjórnsýslu Háskólans."
Mín spurning til stúdentaráðs er þessi: Hver ætlar að taka ábyrgð á þessu?
No comments:
Post a Comment