March 16, 2004

Vandamál eru ekki til

Tilkynnti fyrrverandi kærustu minni áðan að ég ætlaði að reyna að finna mér nýja kærustu. Vantar einhverja svona skemmtilega stelpu til þess að fara með mér í bíó og svoleiðis. Ég er bara ekki nógu skemmtilegur til að halda uppi skemmtun fyrir mig báða. Vantar svona eitthvað sætt sem hlær að bröndurunum mínum og minnir mig á mér hversu voooooðalega fyndinn og sætur ég sé. Er ekki nógu duglegur við það sjálfur. Ekki það að ég standi ekki tímunum saman fyrir framan spegilinn og hnykkli "vöðvana" og sendi sjálfum mér fingurkossa. Það er bara ekki það sama. Meira sorglegt heldur en sætt. Meiri blekking heldur en satt.

Ég held reyndar að þetta sé allt því að kenna að ég hafi verið elsta barn svona lengi. Ég var/er orðinn vanur því að vera miðpunktur athyglinnar og það er erfiðara en andskotinn að losa sig við þann vana. Líkami minn öskrar: "Elskið mig!" Eða ekki. Kannski öskrar hann bara: "Veitið mér athygli!!" Hey! Ég er það sætur að ég á mjög auðvelt með að fá nafnið Súkkulaðikóngurinn. Nú vantar mig bara Súkkulaðidrottninguna.

Veit að ég verð rakkaður niður fyrir þetta. Aldrei að opna sig svona. Sérstaklega þegar maður býr með fyrrverandi kærustunni sinni. Fékk nokkuð gott skot á mig um daginn frá frænda mínum þegar ég lýsti heimilisaðstæðum og lífi mínu síðustu vikur og mánuði. "Hver þarf leiðarljós?" Einmitt! Hver þarf fokking leiðarljós? Ekki ég en ég virðist vera fastur í því. Nú vantar bara að móðir mín verði ranglega sökuð um morð og það komi í ljós að bróðir minn er í raun sonur minn. Kæmi mér ekki á óvart.

Vil samt koma því á framfæri að þetta er ekkert þunglyndisblogg. Ekki vorkenna mér. Því þetta er náttúrulega sjálskaparvíti. Ef maður vinnur við eitthvað sem manni finnst leiðinlegt er alltaf hægt að finna sér annað starf. Finn ég mér annað starf? Held ekki. Ef maður lærir eitthvað sem manni finnst leiðinlegt er alltaf hægt að finna sér annað nám. Finn ég mér annað nám? Það er verk í vinnslu. Þannig að vandamálið er ekki lífið sjálft heldur sú leiðinlega hefð mín að nenna ekki að gera neitt í málunum. Allt einhvern veginn auðveldara ef maður bara lætur lífið halda áfram án þess að breyta aðeins til. Eitthvað til að fá smá tilbreytingu og skemmtun.

Jæja. Alltaf gott að maður viti hvað er að og hvað þarf að gera til að breyta til. Verst að maður geri síðan aldrei neitt í því. Þess vegna býð ég ykkur velkomin hingað inn að ári liðnu til þess að lesa sömu færslu aftur. Held í vonina að ég haldi áfram á sömu braut og geri því ekkert í mínum málum fyrr en það er of seint. Vakna í úthverfunum. Vinnan sú sama. Námið til einskis. Eða kannski fæ ég símtalið í dag? "tobbalicious. Hvernig lýst þér á að vinna við ekki neitt? Fá helling af pening og ókeypis utanlandsferðir!" Ja.... það væri svo sem ágætt. Finn það á mér að þeir hringja í dag. "Ég finn strauma!!!"

Þegar ég er orðinn stór ætla ég samt sem áður að verða forseti. Harðákveðinn í því. Ekkert sem stoppar mig. Sjáið bara hvað ég myndi líta vel út í skrúða. Maður verður að setja sér raunsæ markmið sem hjálpa manni að komast á réttan stað í lífinu. tobbaliciousi allt!

No comments:

Post a Comment