March 25, 2004

Tilvistarspeki

Ég er búinn að skilgreina mig og gera það ljóst í Háskólanum að ég er nú fullgildur listamaður. Geng um í bolum sem á stendur: "Ekki tala við mig. Ég er listamaður." Svo á ég líka annann sem á er ritað: "Ekki trufla! Ég er verk í vinnslu!"

Fólk er svolítið hrætt við mann þegar maður er svona grimmur í listinni eins og ég. En maður verður að vera vakandi og passa sig á því að sofna ekki á verðinum. Þess vegna tók ég fiskinn sem ég var með inni í frysti og bjó til úr honum glæsilegt hálsmen sem ég svo bar með stolti um hálsinn í skólanum í gær. Til þess að fólk myndi sjá að ég er listamaður og það má búast við hverju sem er af mér. Auðvitað horfir fólk á mann eins og maður sé eitthvað klikkaður. En, sko, vandamálið er þeirra. Þau skilja ekki hvað maður þarf að gera til þess að vera tekinn alvarlega sem listamaður. Þau skilja ekki listina og listin skilur ekki þeirra smáborgara hátt. Veit vel að ég á mikinn þroska eftir áður en ég næ fullkomnum tökum á listinni. En viljugur er ég að læra.

Ástæða þess að ég skrifa um listina í dag er sú að síðustu daga hef ég ekki skrifað mikið hér inn þar sem myndlistin hefur átt hug minn allann. Sum ykkar muna eftir verkinu "Hringur lífsins" sem birti ykkur til yndisauka fyrir einhverjum vikum síðan. Verk sem ég hef verið að vinna í daglega frá 12 ára aldri og finnst ég loks hafa náð að endurspegla þann snertiflöt sem er milli mín og þess sem ég hef upplifað í gegnum tíðina. Gleði, sorg og allar þær tilfinningar sem runnið hafa í gegnum kollinn á mér eru þarna í þessum tilfinningaþrungna hring. Það er mér stundum um of að horfa á hann, á það til að brotna niður og hágráta yfir þeim hughrifum sem hann gefur af sér.

En sem listamaður má ég ekki staðna. Nei nei nei nei nei nei nei! Því hef ég hafið vinnu á röð verka sem eiga að gera upp ár mín í Háskólanum. Hvernig minn innri maður vex og dafnar. Vex ég og dafna? Veitir Háskólinn mér nægilega leiðsögn og aðhald til þess að hugur minn nái að þroskast líkt og vel hirtur garður? Er jarðvegur minn nógu frjór? Til þess að finna svör við þessum spurningum og öðrum sem leitað hafa á mig síðustu misserin ákvað ég að snúa mér til málaralistarinnar. Sú list veit ég að hefur að geyma nógu mikinn kraft og vinna úr þessum spurningum.

Málverkaröðina kalla ég einfaldlega: Háskólaárin: Siðfræði, spilling og veikleiki.

Ég hef þegar lokið þremur verkum sem eiga að endurspegla fyrstu þrjú misserin:

Misseri eitt: "Sigur viljans"

Misseri tvö: "Vakningin"

Misseri þrjú: "Lærdómur"

Viðurkenni fúslega að verkin eru svolítið undir áhrifum frá post-structuralista. En ég ætla ekki í grafgötur með það að það er stefna sem alltaf hefur haft mikil áhrif á mig. Maður getur ekki afneitað upprunanum. Vona að þessi verk upplýsi ykkur örlítið um líf mitt síðustu ár. Að skrif mín á þessa síðu verði örlítið skýrari fyrir vikið, við séum meira ein heil við sem lesum þetta. Það er líkt og ég hef skorið sjálfan mig á púls og út blæðir tilfinningum.

Að auki hef ég verið að vinna í ljóðaröðinni til heiðurs helstu stórvirkjum bókmenntasögurnar. Næsta bók sem ég tek fyrir er Glæpur og refsing.

No comments:

Post a Comment