March 1, 2004

Ætla að eyða deginum í það að rölta

Húrðú! Húrðú bara! Víííííltú bjúr? Rekkíííínkar dreppa! Ef einhver ykkar hefur ekki talað við skjólstæðing minn þá eru þetta einu setningarnar sem hann kemur upp úr sér þessa dagana. Þess vegna hef ég ákveðið að tala ekki við hann meir. Sem þýðir að hann hringir stöðugt í mig til að koma og drekka einn kaffibolla með honum. Er að verða búinn með afsakanir. Þó svo að afsakanir hafi svo sem ekkert að segja. Hann hlustar hvort sem er ekki á mig og þar sem hassreykingar og annar ólifnaður er farinn að hafa þau áhrif á hann að hann getur ekki lengur horft framan í annað fólk. Hann starir í allar áttir og segir langar og stórfenglegar sögur af frægð sinni. Best að ég láti fylgja hér með samtal sem við áttum:

tobbalicious: "Já, Skjölli minn, nú ertu að verða svona líka frægur á Íslandi."
Skjólstæðingurinn: "Ég er frægur!"
tobbalicious: "Ha?"
Skj: "Ég var frægur á skÍtalíu og nú er ég frægur hérna! Ég get orðið frægur alls staðar!"

Ég varð alla vegna orðlaus. Gat ómögulega svarað þessu. Held meira að segja að þögnin sem fylgdi á eftir hafi verið frekar ósannfærandi. Benti honum þess vegna á ljóshærða stelpu sem stóð þarna nærri og vissi að ég yrði laus við hann í einhvern tíma. Þurfti smá tíma til að hugsa og melta það sem hann hafði nýlokið við að segja mér. Ég er enn að hugsa um það. Þetta gerðist fyrir þremur vikum. Það sem samt eyðilagði okkar samband er sú staðreynd að maðurinn straujar á sér hárið hvern einasta morgunn. Það er eitthvað rangt við það.

Fyrrverandi meðleigjandi minn er kominn aftur frá útlandinu. Hún er því ekki lengur fyrrverandi, hún er núverandi. Velkomin til framtíðar Deeza. Þó svo að það hafi ekki byrjað vel núverandi sambúð okkar. Deeza fann smokk í ruslinu hjá mér. Mig grunar hvaðan hann kemur en ætla þó ekki að útlista það hér. En hvernig útskýrir maður smokk í ruslinu. Að neita að eiga hann er jafngott og segjast eiga hann. Býður einungis upp á fleiri spurningar. Svo ég ætla að halda mig við þá útskýringu að ég eigi hann en samt ekki og auðvitað sé hann ekki frá mér en samt jú. Að einhverju leyti gæti hann verið minn, eins langt og það nær. Þá er bara að vona að hún finni ekki klámblöðin sem eru í efstu skúffunni á skrifborðinu. Það yrði vandræðalegt maður!

Aftur að mannvitsbrekkunni sem ég kalla "Skjólstæðinginn". Hann hefur þann einstaka hæfileika að finna aðrar mannvitsbrekkur þar sem hann er einkar fordómalaus gagnvart vitsmunum annarra. Því ætla ég að kjósa þetta samtal sem ég átti við íslenskar vinkonur hans sem samtal ársins. Njótið.

Stelpa eitt: "Ég er búinn að sjá þig á háskólasvæðinu. Ertu í Háskólanum? Eða?"
tobb: "Nei, mér finnst bara svo gott að rölta um háskólasvæðið og hugsa. Smitast örlítið af því menntaumhverfi sem má finna þar."

Þögn. Vandræðaleg þögn og tvær stúlkur sem glápa á mig opinmynntar. Ég geri mér grein fyrir því að þær eru ekki að ná að melta þessa skýringu mína á veru minni í Vatnsmýrinni. Áður en þær ná að komast yfir á það svæði hugsunar sem myndi kalla á áfallahjálp ákveð ég að útskýra málin.

tobb: "Ég var bara að grínast. Ég er að læra í Háskólanum."

Meiri þögn. Þessi játning á námi virtist vera of mikið. Melta stelpur, melta. Koma svo. Þið getið þetta alveg. Það er engin skömm í því að fatta hlutina. Ljós kviknaði í augum þeirra. Þær litu hvor á aðra og mikill léttir kom yfir okkur öll þrjú. Stelpa tvö leit á mig og stoltið sem skein úr andlitinu á henni varð þess hér um bil valdandi að ég gréti. Hágréti. Svo hún lítur á mig og segir mér:

"Ég ætlaði að segja það! Hvað? Á hann ekkert líf þessi strákur? Bara hangandi í Háskólanum og er ekkert í honum!!!"

Ég ætla að halda því fram að Óli hafi lýst þessu best þegar hann sagði um stelpu eitt að hún væri örugglega heimskasti einstaklingur sem hann hefði talað við. Ég segi gott hjá henni. Hún hefur fundið eitthvað sem hún skarar fram úr í. Annað en ég sem er bara meðalmaður í öllu sem ég tek mér fyrir.

No comments:

Post a Comment