September 29, 2004

Áfengi í morgunmat

23. sept: Leifstöð. 2 lítrar af Brennivíni og 400 sígarettur og Völundur og tobbalicious eru tilbúnir í ferðalag. Samt vantar ennþá morgunmat. Svo bjórinn í kjallaranum kom sér vel. Við vorum þó ekki jafn kröftugir og hópurinn sem sat á móti okkur. Koníak í morgunmat. Heill peli af koníak í morgunmat. Það er kreisí. Sérstaklega þar sem einn úr hópnum sá um að slátra helmingnum. Hitti svo á tvo í hópnum á klósettinu þar sem ég fékk að hlusta á þessar skemmtilegu umræður:

"Ertu ekki búinn að versla?"
"Jú. Bara eina koníak."
"Ætlar ekki að kaupa Jägermeister?"
"Ætti ég að gera það?"
"Þú verður að eiga Jägermeister í rútunni frá flugvellinum!"

Ég verð að segja fyrir mína hönd að ég hélt að þetta væri búið. Fyllerísferðir miðaldra íslendinga til útlanda. En það er greinilega ekki svo.

Svaf í fyrsta flugi. Gerist ekki oft svo ég var ánægður með það. Einhver bið á Stansted sem notuð var til að lesa bækur og drekka kaffi. Flug svo til Ítalíu sem ég man ekki mikið eftir svo við segjum það hafa verið fínt. Komumst samt að því þegar við vorum lentir að flugvöllurinn Bologna-Forli er alls ekki í eða nálægt Bologna. Hann er laaaaaangt í burtu. Auk þess sem stúlkurnar sem áttu að koma að sækja okkur höfðu farið á rangan flugvöll að sækja okkur. Fundum þó rútu sem gekk þvert yfir ítalíu og endaði í Bologna. Einum og hálfum tíma síðar komum við þangað og hittum stúlkurnar tvær, Nicolettu og Marcellu. Þær höfðu gott forskot á okkur í drykkju og réttu því tveggja lítra hvítvínsflösku að okkur og heimtuðu að við drykkjum. Hvað gátum við gert? Ég og Völundur erum það góðir strákar að við þorðum ekki annað en hlýða. Opnaði þó töskuna mína og rétti fram tvo lítra af brennivíni og krafðist þess að þær drykkju einnig. Þær urðu grænar í framan og rifjuðu upp kvöld sem eytt var í að faðma klósettið hér á Íslandi.

Skiluðum af okkur bílnum og gengum niður í bæ. Brennivínsflaska í hönd og hver sá sem við hittum var neyddur til þess að drekka tappafylli af Brennivíni, nema ein stúlka sem ég verð að hæla. Chiara vinkona þeirra tók hvern tappann á fætur öðrum líkt og um vatn væri að ræða. Við bliknuðum í samanburði.
Chiara, Völundur, Marcella og spænsk stúlka


Marcella bauð með í ferðalagið spænskri stúlku sem við hittum á röltinu. Man ekki alveg hvað hún heitir en við vorkenndum henni svo að vera einni á ferðalagi. Helltum í hana Brennivíni og komum okkur á stað sem heitir L'Irish. Heitir reyndar The Irish Pub en til hægðarauka skelltu þeir á það ítölskum greini og slepptu pub. Sátum þar langt fram eftir nóttu. Enduðum svo á því að kíkja í bakarí sem rekið er af júgóslavneskri mafíu. Pabbinn í mafíunni afgreiddi og inni stóðu fjórir fílefldir "synir" hans og ein stúlka væntanlega ættuð frá Suður-Ameríku íklædd hvítum spandex stuttbuxum og topp. Mér fannst nú heldur kalt í veðri til þess að vera svona klædd.
Marcella og júgóslavneskt mafíupizza


Rúmið.

No comments:

Post a Comment