Ljósadýrð
Nýja íbúðin er smátt og smátt að venjast ekki. Ég vil ekki vera vanþakklátur. Alls ekki. Ánægður að hafa þak yfir höfuðið og geymslu til þess að hvíla þennan meitlaða marmaralíkama. Marmarar þurfa líka hvíld. En mikið rosalega er þessi íbúð ömurleg. Veit bara um einn hlut sem er ömurlegri þessa dagana en hann ætla ég ekki að minnast á. Kominn í 35 fm úr 60. Með allt dótið sem var þar inni. Hver einasti staður þar sem hægt væri að setja hinn minnsta hlut er þannig að annaðhvort er þar staddur ofn eða hurð sem þarf að opna. Meira að segja búinn að fjarlægja eina hurð til þess að búa til svefnherbergi. En þar með missti ég geymsluna. Grrrrreit!
Svo er það þessi ghettoblokk sem ég þarf að búa í. Ekkert nema kílómeterslangir gangar, stálgrindverk og veggi úti um allt og endalaust magn þvottavéla í kjallaranum. Þar sem ég var voru ruslafötur hér eru ruslagámar. Ég hef átt heima í niðurnýddum illa lyktandi blokkum sem voru sjarmerandi. Þar var gaman að vera. Hér, líkt og Jó benti réttilega á, eru handriðin lág svo íbúum reynist það auðveldara að kasta sér fram af þegar blokkin hefur náð að sjúga úr þeim síðasta neista vonar. Þetta er þunglyndasta og sorglegasta bygging sem ég hef nokkurn tímann séð. Ég fæ líka að búa í henni svo enga öfundsýki.
Hef ekki einu sinni hjartað í mér að heilsa fólki sem ég rekst á vafrandi um gangana. Það yrði of mikil vorkunn í röddinni hjá mér. "Góðan daginn" myndi hljóma líkt og "Æ, býrð þú hérna líka?" Leyfi þeim frekar að njóta eigin þunglyndis.
Annars er allt í besta. Pantaði mér ferð ásamt Völundi til skÍtalíu til þess að heimsækja tvær af þeim fáu konum sem ekki eru snargeðveikar. Helgarferð sem vonandi nýtist líka sem íþrótta og tómstundaferð. Mér hefur samt bara verið lofað áfengi svo ég veit ekki hvernig fer með íþróttirnar?
Kominn með meðleigjanda aftur. Veit ekki hvort ég get samt kallað hana meðleigjanda. Hún býr alla vegna hérna og hefur fengið leyfi til þess að hýsa vinkonu sína sem væntanleg er til landsins. Fullt hús kvenna og ekkert kynlíf. Er einhver furða þó ég sé svolítið uppstökkur þessa dagana? Kannski ég fái bara að flytja inn á Völund á meðan? Hef ekki girnst hann kynferðislega áður og ætti ekki að taka upp á því á gamals aldri. Sem minnir mig á að ég hef rúmlega þrjá mánuði til þess að fara út með rokkstæl. 24. des er lokadagur.
Ég ætla ekki að eyða orðum í það hvað ég verð alltaf fyrir miklum vonbrigðum að hefja nýja önn í háskólinu. Ég ætlaði bara að minna ykkur sem vinnið fulla vinnu að skattpeningarnir ykkar fara í þetta. The Joke is on you my friend.
No comments:
Post a Comment