Klárum þetta helvíti víst við erum komin svona langt. Sunnudagur, mánudagur og þriðjudagur.
Flórens var skoðuð á sunnudeginum. Get ekki sagt að lestarferðin hafi verið sú þægilegasta sem ég hef nokkurn tímann lent í. Svefnleysi og þynnka að angra okkur. Ég held ef ég man rétt að eftir að við vorum sestir inn í lest höfum ég og Völundur ekki sagt eitt orð fyrr við hvorn annan fyrr en stigið var út í Flórens.
Flórens er fögur borg. Annað verður ekki sagt. Rík af sögu og merkilegum... bla dí bla dí bla dí bla dí bla (farðu niður í næstu línu, þetta heldur svona áfram) dí bla dí bla dí bla dí bla... sem að hefði ekki verið í frásögu færandi nema hvað þessi ákveðni sunnudagur var dagur listarinnar. Sem þýddi það að ókeypis var á öll söfn borgarinnar. Svogggggg... meðal viðstaddra þennan dag voru ég og Völundur, helmingur ítölsku þjóðarinnar og hér um bil allir túristar sem staddir voru á Ítalíu þennan ákveðna dag. Kílómetra langar raðir fyrir utan hvert hús í borginni og meirihlutinn af þeim voru örugglega ekki söfn. Bara einhver sem hefur stoppað fyrir utan og ætlað að dingla, fólk rekið í það augun og ákveðið að mynda röð. "Hann var í röð svo það hlýtur eitthvað að vera þarna inni?" Svo ég og Völundur ákváðum bara að skoða Flórens utan frá. Það var alla vegna ekki röð í það.
Kom líka svolítið skemmtilega á óvart að yfirvöld í Flórens hafa tekið upp þann sið að nú er fánaborg senegalbúa um alla miðborgina. En í stað fána eru þeir með lítil pappakassaborð sem hægt er að brjóta saman á mettíma, með einu flauti eða kalli vinar, sem hafa að geyma sólgleraugu eða úr. Veit ekki hvað sólgleraugu eða úr hafa að gera með sögu Flórens en megin þema virðist þó vera örlítið hvísl sem mér fannst hljóma líkt og: "skjúsmí skjúsmí."
Lestarferðin til baka var örlítið ævintýri. Þar sem ég hafði í einfeldni minni pantað miða "fram og tilbaka" hélt ég alveg örugglega að miðinn sem ég var með gilti fram og tilbaka. Það reyndist ekki vera. Sá sem seldi mér miðann hafði nefnilega gleymt því að segja mér að það væru ekki seldir miðar fram og tilbaka með Eurostarlestum. Þannig að þegar við vorum krafðir um miða, sem ég og sýndi með glöðu geði, horfði lestarvarðan(ég er svo meðvitaður um jafnrétti) á mig og sagði:
"Hvað er þetta?"
"Miði?"
"Já en hann gildir frá Bologna til Flórens. Þú getur ekki notað hann tilbaka."
"Miði????"
Svo hún byrjar að vinna í því að rukka okkur um lestarfarið. Á í hellingsvandræðum með hátæknmiðasölukerfið sem er um borð og í millitíðinni skröpum við saman öllum þeim evrum sem við erum með á okkur. 35 evrur og einhver sent. Hún nær loks að prenta út kvittunina og segir hárri röddu: "Það verða 43,16 evrur." Ég roðna allur og segi lágri röddu: "Fyrirgefðu.... en við erum bara með 35. Get ég.. get ég nokkuð borgað með korti?" Læt lítið bros fylgja með. Hún starir á mig og byrjar að rífa miðann í sundur með orðunum: "Tja! Hann er þá ónýtur þessi!" Fokk!, hugsa ég með mér, ekki gera vandræði. Ekki gera vandræði. Ekki gera vandræði. En stundum þegar maður heldur að allt sé að fara í skít þá kemur máttu kynþokkans í málið. Kemur ekki í ljós að Völundur er það löðrandi í kynþokka að stúlkan segir við mig: "Ég sleppi þá sektinni. Eeeeen bara af því vinur þinn löðrar í kynþokka." Fengum sem sagt að borga 26,14 evrur fyrir ferðina. Hún átti reyndar ekki 1 evrusent til þess að gefa mér til baka en ég var ekkert að gera vandræði út af því. Ég hefði samt örugglega getað látið reka hana fyrir það að gefa ekki til baka.
Um kvöldið var okkur svo boðið á októberfest. Sem var svolítið skrítið. Það var september og við á Ítalíu. Eeeeeníveis þá keyrðum við út úr borginni og upp í breiðholt þeirra bolognabúa þar sem hátíðin fór fram í litlu íþróttahúsi. Borðuðum mat og pöntuðum bjór. Vorum samt ekki í miklu stuði eins og sést á þessari mynd.
Þreyttur en samt hálfnaður

Gerðist eiginlega ekki neitt fyrr en bansarnir tveir komu á svæðið. Matteo, kærasti Nicolettu, og vinur hans Grikkinn!. Grikkinn! og Matteo kepptust um það að skála og það var ekki komist hjá því að taka stóran sopa við hverja skál. Hálftíma eftir að þeir komu var stemningin orðin svona:
Hvar er tobbalicious?

Það besta átti samt eftir að gerast. Joe Dibrutto. Þvílíkan og annan eins skemmtikraft hef ég aldrei séð. Tónlistin var ömurleg. Smellir frá Bee Gees og Boney M aðallega en Max B sá um alla skemmtunina. Maðurinn kunni alla diskódansa undir sólinni. ALLA! Og salurinn var óhræddur að dansa með. Myndir af stráknum:


Heilsað upp á Joe eftir tónleikana.

Mánudagurinn var síðan notaður til hvíldar. Flugum síðan heim á þriðjudeginum. Lítið sem gerðist fyrir utan það að við komumst að því að heilli álmu í Stansted er lokað á meðan fólk tékkar sig inn í flug til Tel Aviv og vopnaðir verðir gæta þeirra sem eru að skrá sig inn. Geðveiki.
Ferðinni var síðan eiginlega slúttað með enn meiri geðveiki þegar síðast farþegi vélarinnar heim labbar langsíðastur inn sér að allt er fullt í geymsluhólfinu fyrir ofan sætaröðina okkar, sem var sú fyrsta, hlammar sér þá niður og setur töskuna út á mitt gólf. Flugfreyjan sem er að sýna neyðarútganga vélarinnar rekur augun í töskuna og segir ósköð blíðlega við manninn: "Ég er hrædd um að þú verðir að setja þetta upp í geymsluhólf." Hann horfir á móti og segir þessa ógleymanlegu setningu: "Þú verður bara að gera það sjálf!" Ég og Völundur bara komum ekki upp orði... störðum á hvorn annan og síðan hann. Gerðum það meira að segja tvisvar. Meira að segja Spánverjarnir sem sátu í röðinni á móti gláptu í forundran þegar greyið konan teygði sig eftir töskunni og bar hana aftur í vél. Okkar maður lét sér fátt um finnast, tók af sér skóna og hallaði sætinu aftur. Geðveiki.
No comments:
Post a Comment